Vatnshöfuð

Logi Logi Logason talar ekki mikið. Í staðinn jánkar hann og leyfir brosinu að frjósa á andlitinu sínu á meðan aðrir tala. Í morgun byrjaði hann samt að tala. Það ætlaði aldrei að gerast. Hann var ekki búinn að segja stakt orð, ekki einu sinni góðan daginn. Ég var hins vegar búin að segja honum allt frá vinkonu minni sem var að byrja í master í kvikmyndafræði, evrópsku bíómyndinni sem ég fór á í gær og manni sem í kynntist í Belgíu í fyrra. En svo… Bara svona allt í einu… 

“Hausinn minn rúmar 3,1 lítra.” 

Ég beið eftir samhengi. Gerði eins og hann gerir, brosti og jánkaði. Skildi ekki alveg hvað ég hafði gert til að verðskulda þessar upplýsingar. Kannski var það af því að ég hafði helt upp á kaffi fyrir hann. Hann tók við bollanum og bar hann saman við hausinn sinn.

“Hvað heldurðu að þessi bolli sé stór?” spurði hann.

Ég er alls ekki góð í að horfa á hluti og segja hvað þeir eru stórir. Ég yppti öxlum og beið eftir því að hann myndi svara sinni eigin spurningu. Átti reyndar kannski von á því að hann myndi svara henni í hljóði. Hann yggldi sig. Ég sá einhverjar tölur myndast á vörum hans en hann hljóðaði þær ekki. Síðan smjattaði hann og dró inn andann.

“Ætli það þyrfti ekki tíu svona bolla, kannski 12.”

Bollastellið var úr einhverju dánarbúi. Ekki neinu tengdu mér reyndar, en svo sagði maðurinn þegar mér áskotnaðist það. Mögulega sagði hann líka “heldra fólk” við mig þegar hann rétti mér kassann, en ég er samt ekki viss. Þetta var allavega fínasta bollastell, blátt með mynd af máfum á.

“Já, einmitt. Af hverju ertu að pæla í þessu?” spurði ég. 

Logi Logi Logason roðnaði. Hann lagði niður bollann og krosslagði handleggi. 

“Sko…” sagði hann en ég fann að þetta var ekki byrjunin á neinni skýringu. Hann var ennþá ekki tilbúinn að tala. Hann hafði bara misst þetta út úr sér. Ég tók við orðinu eins og vanalega, til að bjarga honum úr sjálfheldunni: “Ég held að það sé of mikið vatn í mínum haus, ég held að ég sé með svona ógreint vatnshöfuð. Ég finn það ef ég ýti hér.”

------------------------------

Ég var alveg viss um að Logi Logi Logason hataði mig þegar við kynntumst. Við vorum að vinna saman. Hann var rosamyndarlegur gaur. Allar stelpurnar voru skotnar í honum úr fjarlægð, en ég gat samt aldrei munað eftir andlitinu hans. Ég þekkti hann bara á hárinu. Við stóðum hlið við hlið og pússuðum hnífapör, og ég var að reyna að kynnast honum. Ég spurði hann að öllum spurningunum sem ég hafði lært að spyrja: 

 

  1. Ertu í námi?

                -(ef já)-

  1. Hvaða námi?

      -(Hér er möguleiki á að skjóta inn hvern maður þekkir sem er í sambærilegur námi)-

  1. Hvernig er það?
  2. Áttu einhver áhugamál? 

        -(Fjórða spurningin á það til að hljóma barnalega en hún er líklegust til árangurs.)-

 

Svörin hans Loga Loga Logasonar voru einstrengingsleg og rækilega vel innrömmuð með þögn. Á þessum tíma kunni ég ekki að haga mér í þögninni. Ég pússaði hnífapörin á leifturhraða í von um að hann myndi smitast af ákafa mínum. Þegar engin af spurningunum þróaðist í alvöru samræður gafst ég upp. Tók við keflinu og sagði honum frá framkvæmdunum sem voru að eiga sér stað í nýju íbúðinni minni og konunni sem bjó þá fyrir ofan mig. Hann reyndi ekki að koma inn orði, stóð bara með frosið bros, pússaði hnífana og jánkaði í þau fáu skipti sem ég þurfti að anda.

 

Hann hlaut eiginlega að hata mig… það þegir enginn svona mikið með fólki sem manni líkar vel við. 

--------------

Í dag myndi ég alveg kalla okkur vini. Við vinnum ekki lengur saman en hann kemur í kaffi einu sinni í viku. Það er lítið að gera hjá okkur báðum og við höfum gott af félagsskapnum. Honum finnst ég kannski óþarflega hress, en ég er viss um að hann hefur lúmskt gaman af því.  Ég fór frá því að tala um vatnshöfuð í að tala um heimafæðingar. Svo sagði ég honum frá símtali sem ég átti við mömmu, manninum sem seldi mér hjól fyrir ári síðan og afa vinkonu minnar sem gerir við úr á Laugarveginum.

Þegar ég sagði honum frá úrsmiðinum brosti hann smá, en brosið fraus ekki. Því nánari sem við höfum orðið, því sjaldnar brosir hann og jánkar. Hann þarf ekki lengur að sanna fyrir mér að hann er að hlusta.

Þegar mér datt ekkert meira í hug til að segja stóð ég upp til að búa til meira kaffi. Útum gluggann sá ég máfa alveg eins og á bollunum. Ég sneri mér snögglega við og ætlaði að benda Loga Loga Logasyni á fuglana, en hann var fyrri til máls.

Logi Logi Logason: “Áttu fötu?”

“Á ég fötu?” hváði ég.

“Já.” svaraði hann.

-Þögn í 4 sekúndur-

“Kannski á ég fötu, hvað ertu spá?”

Logi Logi Logason var skælbrosandi, en hann horfði ekki á mig heldur á máfana fyrir utan gluggann. 

Logi Logi Logason: “Þú getur mælt rúmmál höfuðsins ef þú átt fötu…”

-Þögn í 3 sekúndur-

Ég: “Af hverju ertu-”

Logi Logi Logason: “Þú barmafyllir fötuna og dýfir hausnum ofan í. Svo þarf bara að mæla hversu mikið vatn er eftir í fötunni…”

-Þögn í 2 sekúndur-

Ég: “Já, en hver er-”

Logi Logi Logason: “Þú þarft bara að hafa það á hreinu hversu marga lítra fatan rúmar. Ég get lánað þér mína. Hún er akkúrat fimm lítrar.”

 

Seinna um daginn komst ég að því að ég er með óvenju smátt höfuð. Ekki nema 2,7 lítrar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Gústavsson

Kunnulegur einstaklingur.

Axel Gústavsson, 14.9.2023 kl. 20:18

2 Smámynd: Ísabella Lilja

Þetta þykir mér skemmtileg saga ætla að reyna að finna fötu svo ég geti mælt hausinn minn, mig grunar að hann sé lítill ekki meira en 3 lítrar laughing

Ísabella Lilja, 14.9.2023 kl. 20:23

3 Smámynd: Bjartur Elí Ragnarsson

hausinn minn er hjúts það er kreisíyell

Bjartur Elí Ragnarsson, 15.9.2023 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gork Spork

Höfundur

Katla Björk Gunnarsdóttir
Katla Björk Gunnarsdóttir
Hæ, velkomin á bloggið mitt. :-P Ég heiti Katla Björk og ég er í myndlist í lhí!!! Áhugamálin mín eru að ferðast, hanga með vinum og borða góðan mat.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • P1030932
  • P1030931
  • P1030930
  • P1030929
  • P1030927

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband