Kexi og sögumaður í Londrómat

“Þvottahús, svona alvöru þvottahús… Eða ég meina svona lon-dró-mat. Þessi stemming er bara ekki til á Íslandi, það eru allir með þvottavél heima hjá sér.” Sögumaðurinn leggur lófann á eina af þvottavélunum. “Merkilegt dæmi.”

Kexi potar sögumanninum áfram, nennir ekki að bíða eftir henni. Hann hatar þennan stað út af lyktinni. 

Kexi: Ég hata þessa lykt.

Sögumaður: Já, hún er reyndar smá úldin…

Innst inni í salnum er greiðsluvél. Kexi neitar að læra hvernig hún virkar, jafnvel þó að leiðbeiningarnar séu á móðurmálinu hans. Hann tekur upp greiðslukortið, beinir því í átt að vélinni, teiknar myndir með því í loftinu. Sögumaðurinn stendur bakvið við hann með krosslagðar hendur. Hún þykist telja þvottavélarnar með augunum. Hún neitar að bera ábyrgð á framgangi sögunnar.

Kexi: Hvernig gerir maður aftur?

Hann snýr sér við. Kortið er ennþá á vandræðalegu hringsóli.

Sögumaður: Hvað meinarðu, við gerum þetta í hverri viku. Þú ýtir bara hér og hér og hér. Og svo treðurðu kortinu inn í. Svona. Þú kannt þetta alveg.

Kexi kinnkar kolli af rælni. Hún fór of hratt yfir, eins og alltaf. Í hverri viku verður rullan hraðari og ólíklegra fyrir Kexa að botna hvað “hér-in” eiga að merkja. Hann rennir kortinu inn í, varfærnislega. Leyfir fingrunum að elta, leyfir þeim að bíða við opið, þeir eru með aðskilnaðarkvíða. Hann treystir ekki þessari vél. Hann treystir ekki þessari stofnun. Þessi lykt er svo ógeðsleg og hún verður verri og verri í hverri viku.

 

—--------(Athugasemd) —--------

 

Ég vil leggja áherslu á fjölda þvottavéla. Þær eru alla vega 15 en kannski færri en 25. Veggirnir eru þaktir vélum… Kannski eru engir veggir. Kannski er hleðsla þvottavélanna grundvöllur þess að þetta rými er til. Heimilislegt hljóðið í trommunum verður drungalegt þegar það kemur úr öllum áttum.

 

—------(Lok athugasemdar) —--------

 

Kexi vill bíða eftir þvottinum. Hann setur upp svip og togar í sögumanninn sem vill láta sig hverfa.

Sögumaður: Það er enginn að fara að stela rennblautum þvotti, Kexi.

Kexi: Hvað veist þú um það?

Hurðin opnast. Tveir aðilar ganga inn: Kona og maður. Sögumaðurinn lítur undan. Þannig gefur hún þeim næði til að koma sér fyrir í senunni. Þau eru ung, en á óræðum aldri. Þau eru bæði fíngerð. Þau eru bæði undrandi. Þau tala fjórða tungumálið. Ekki tungumál landsins og ekki tungumál sem Kexi og sögumaðurinn kunna.

“Skrítið fólk,” segir sögumaðurinn á sínu móðurmáli. Það kann það hvort sem er enginn nema hún og Kexi. 

Fólkið bendir á allt. Þvottavélarnar, greiðsluvélina, leiðbeiningarnar, þvottaefnið. Það benti örugglega líka á lyktina. Svo ó-uðu þau og a-uðu til skiptis. Þau voru lengi að finna út úr þessu. Höguðu sér eins og ungabörn í nýju umhverfi. Það fór í taugarnar á sögumanninum jafnvel þó það kom henni ekkert við. Hún fylgdi þeim eftir með augunum en þóttist telja þvottavélarnar þegar þau litu til hennar. 16… 17… 18… 19…

Fólkið virðist vera búið að finna út úr þessu með greiðsluvélina, flöskuháls ferlisins. Þau setja þvottinn í þvottavél og þvottefnið í hólf á þvottavélinni. Svo stilla þau sér upp andspænis vélinni. Vélin rymur. Hún þrýstir sér af stað og þvottinum með. 

“Já, þau eru stórfurðuleg.” samsinnir Kexi. 

Það er óþægilegt að horfa lengi á þau en það er ómögulegt að horfa ekki á þau. Þau eru of heilluð af þessari þvottavél.  Konan bendir á hólfið með þvottaefninu. Dregur það út og kíkir ofan í það.

Kona: Segir eitthvað ógreinilegt. 

Maður: Ó…!

Þau horfa hvort á annað. Snerta hvort annað. Snerta þvottavélina og Ó-a og A-a. Kíkja til skiptis ofan í hólfið. Furðulostin, undrandi, heilluð. Svo heilluð að Kexi og sögumaðurinn blygðast sín.

2023-07-312017-05-20


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gork Spork

Höfundur

Katla Björk Gunnarsdóttir
Katla Björk Gunnarsdóttir
Hæ, velkomin á bloggið mitt. :-P Ég heiti Katla Björk og ég er í myndlist í lhí!!! Áhugamálin mín eru að ferðast, hanga með vinum og borða góðan mat.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • P1030932
  • P1030931
  • P1030930
  • P1030929
  • P1030927

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 816

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband