Dídídí og einlægni

Íslenska veðrið er myglað og köld myglan smitast í gegnum gluggana á skrifstofunni. Samt er alltaf volgt inn á kaffistofu og sjóðheitt þegar maður stillir kaffistofustól upp við ofninn lengst frá vaskinum. Það er bara pláss fyrir einn stól þar en við erum góð í því að skiptast á... það er hvort sem er ekki gott fyrir húðina á mjóbakinu að vera í nánd við svona mikinn hita endalaust. Á kaffistofunni tölum við um veðrið og gluggana og hugsanleg gluggaskipti og einangrun og hvað það gæti kostað fyrirtækið. Svo gengur Dídídí inn.

 

Dídídí heldur á plastdollu í vinstri hendi og glerkrukku í hægri. Hún brosir, spyr okkur hvað við vorum að tala um og stelur sætinu af Dóróteu sem skrapp á klóstið. Hún opnar krukkuna. Stingur litla fingri ofan í og sleikir hann.

 

                                                                        pent.

 

Hún sleikir litla fingur og segir okkur hvað er í rauða gumsinu.

 

            2 msk. greipsafi

            180 gr sykur

            300 gr hindber

            6 eggjarauður

 

            smá salt

 

Eina sem er flókið er að tempra eggin.

Við kinkum kolli. Vá, þetta er ekkert mál hugsum við og fáum að smakka hjá henni. Hún yppir öxlum og hvetur okkur til þess að endurtaka skrefin, þetta tók hana jú bara fimmtán mínútur.

 

Dís Náttúra er alltaf kölluð Dídídí á skrifstofunni en Natura í útlöndum. Hún hugsar allt í uppskriftum. Líka sjálfa sig.

 

            Hvað finnst ykkur um haustveðrið? spyr hún og opnar plastdolluna.

 

Við finnum lyktina og verðum forvitin, réttum úr okkur svo við náum rétt svo að sjá ofan í dolluna. Hún sér að við erum forvitin, glottir í sekúndubrot en hjúpar svo glottið með einlægni. Andlitsvöðvarnir eru jú þaulæfðir í einlægni.

 

Þetta er bara þorskhnakki frá því í gær. Ferska kartöflusalatið sem ég gerði er samt æði. Það þurfti bara að nóg af ferskum kryddjurtum, dilli og steinselju. Síðan bara:

 

            2 msk. majónes

            1 tsk. sítrónusafi

            5 saxaðar súrar gúrkur

           

            Og nóg af svörtum pipar

 

Dídídí býður okkur að smakka kartöflusalatið. Hún nýtur þess að bjóða fólki mat. Það er gott að næra fólk. Hún er góð ef hún nærir fólk. Við erum ennþá með bragðið af rauða gumsinu í munnninum en samt lofum við að smakka kartöflusalatið. Það er gott á bragðið og ekkert mál... Alveg eins og gumsið.

 

Agnari er orðið heitt á bakinu. Hann nuddar það og grínast með að húðin verði örugglega orðin að skorpu eftir þennan vetur.

 

Við hlæjum öll, nuddum öll sama punkt á mjóbakinu og segjum „vá einmitt, það er alltaf þannig“. Öll nema Dídídí sem hefur aldrei setið í þessum stól. Hún horfir á okkur, örlítið skilningslaus en hún felur það. Hún horfir á okkur og reiknar út viðeigandi viðbrögð.

 

            Smá hlátur (ekki of ákafur)

            Látbragð (Hér er gott að nudda hrygginn með flötum lófa svo hreyfingin verði

            sannfærandi)

            Gretta

            Almennt samlæti

 

            Og nóg af einlægni

           


Asie Neptune

Það er pottþétt ekki opið.

Það er alltof dimmt til að vera opið.

Samt var hurðin var opin.

Matsölustaðurinn hét Asie Neptune (Neptúnus Asía?), ritað með þykkum rauðum stöfum á skærgrænu skilti. Kexi og sögumaðurinn hengu á hurðarhúninum, hikandi….. Annað þeirra var svo nálægt því að stinga upp á því að fara eitthvað annað…

En þá kom hún…. 

Hlaupandi úr myrkrinu.

“Komið inn, komið inn, komið inn, komið inn,” sagði hún. Tók utan um úlnliðinn á sögumanninum og dró hana inn fyrir. Kexi elti. Lítið fyrir hann að gera, einan fyrir utan.

“Setjist bara þar sem þið viljið.” Konan talaði af svo miklum ákafa að það hefði verið ókurteisi að hlýða henni ekki.

Það var enginn inn í salnum. Auðvitað settust þau við gluggan. Óþarfi að fara innar í salinn. Inn í myrkrið.

Sögumaður: Af hverju er svona mikið myrkur hérna inni… Er það ekkert skrítið?

Kexi: Kannski eru þau að spara rafmagn. Þú veist… Það er orðið svo dýrt út af stríðinu.

Sögumaður: Já, einmitt. Slökktum við á ofninum áður en við fórum út? 

 

Matseðlarnir voru úr plasti, borðdúkurinn var úr plasti og blómin voru úr plasti. Konan var í svuntu úr plasti og það skrjáfaði í henni þegar hún hljóp um rýmið. 

Kexi: Ég ætla að fá mér forrétt og aðalrétt. 

Þau pöntuðu. 

 

—- ATBURÐARÁS 1 —-

 

-> Maður gengur inn.

-> Hann brosir til Kexa og sögumannsins, segir verði ykkur að góðu. (Þau eru ekki komin með matinn sinn).

-> Hann er langur með galopin augu.

-> Hann gengur löngum hægum skrefum, innar í rýmið.

-> Hann blandast myrkrinu.

-> Hann blandast myrkrinu meira.

-> Hann sest niður á innsta borðið. Snýr samt í áttina að Kexa og Sögumanninum (ath. mikilvægt seinna.)

-> Hann pantar.

 

—- LOK ATBURÐARÁSAR 1 —-

 

Einhversstaðar í myrkrinu er láréttur kæliskápur fyrir útstillingar. Svona eins og í bakaríum. Hann er eini ljósgjafinn í rýminu. Sömuleiðis eini hljóðgjafinn, fyrir utan svuntuna. Hún skrjáfar. Hann suðar.

Sögumaður: Er það bara ég eða er óvenjumikil þögn hérna inni?

Kexi: (Hátt og snjallt) Ha? Varstu að segja eitthvað?

Sögumaður: Fyndinn ertu.

Litla konan í svuntunni hljóp að kælinum. Hún náði í eitthvað úr kælinum og hljóp inn í eldhúsið sem var alveg innst í rýminu. Þar gargaði hún eitthvað. Kom svo hlaupandi fram alla leið að borðinu við gluggann. Það skrjáfaði í henni. Kexi og sögumaður settu sig í stellingar og tóku hendur af borðinu. Konan setti sitt hvorn diskinn fyrir framan þau, sagði verði ykkur að góðu og hljóp til baka. Allt á undir fimm mínútum. 

Kexi: Ætli hún hafi sett persónulegt met?

Sögumaður: *Hlær* 

Þau fá sér bita.

Maturinn var allt í lagi, þangað til hann hætti að vera allt í lagi og byrjaði að vera pínu skrítinn á bragðið. 

Sögumaður: Hvað er þetta gráa?

Kexi: Ég held að þetta sé nautahakk.

Sögumaður: Oj bara…

Kexi: Þetta er samt alveg ætt…

Sögumaður: Já… mitt líka…

 

—- ATBURÐARÁS  2 —-

 

-> Litla konan kemur hlaupandi úr eldhúsinu með þrjá diska.

-> Hún leggur einn á borðið hjá manninum í myrkrinu og segir verði þér að góðu.

-> Hún leggur hina tvo hjá Kexa og sögumanninum og segir verði ykkur að góðu.

-> Önnur lítil kona gengur inn.

-> Hún horfir til Kexa og sögumannsins og brosir.

-> Hún segir verði ykkur að góðu. (Alltof hátt, hún er ekki búin að venjast þögninni.)

-> Hún bendir á Kexa og sögumanninn, horfir til afgreiðslukonunnar og spyr: “Hvað eru þau að borða?” (Ennþá of hátt)

-> Afgreiðslukonan svarar. 

-> Litla konan (viðskiptavinurinn) sest á borð ekki langt frá Kexa og sögumanninum.

-> Kexi fær sér bita og grettir sig.

-> Sögumaður fær sér bita og grettir sig.

 

-- LOK ATBURÐARÁSAR 2 —-

 

Sögumaður: Ég get ekki borðað þetta.

Kexi: Jú víst. Hættu þessu.

Sögumaður: Finnurðu ekki bragðið af þessu?

Kexi: Hvaða bragð.

Sögumaður: Gamla bragðið…

Kexi hættir að borða.

Sögumaður: Þetta súra… Sem var líka af forréttinum.

Kexi: Jú, ég finn það… Það er ekki gott.

Kexi heldur áfram að borða.

Sögumaður: Ætlarðu samt að borða þetta?

Kexi: Já, ég meina ég er að borga fyrir þetta.

Sögumaður: Oj. Ég get ekki borðað þetta.

 

-- ATBURÐARÁS 3 —-

 

-> Litla konan (viðskiptavinurinn) og litla konan (afgreiðslukonan) tala hátt saman.

-> Kexi fær sér bita.

-> Sögumaður grettir sig.

-> Litla konan (viðskiptavinurinn) hlær (alltof hátt).

-> Sögumaður horfir í kringum sig.

-> Sögumaður horfir inn í myrkrið.

-> Maðurinn í myrkrinu situr með súpuskál fyrir framan sig.

-> Hann sýgur upp munnfylli af skjannahvítum núðlum.

-> Hann horfir til sögumannsins. Augun hans eru jafn hvít og núðlurnar. 

-> Augun og núðlurnar eru ljósgjafi í myrkrinu.

-> Núðlurnar eru hljóðgjafi í myrkrinu.

-> Sögumaður kúgast.

 

-- LOK ATBURÐARÁSAR 3 —-

 

Sögumaður: Oj. Þetta er ógeðslegt. Ég get ekki borðað þetta.

Hún rótar í núðlunum. Færir þær til á disknum. Lyftir einni með gafflinum og ber hann upp að munninum. Hún kúgast.

Kexi: Hættu þessu.

Kexi treður kúffullum gaffli af núðlum upp í sig.

Sögumaður: Kexi, þetta er ógeðslegur matur. Þú verður örugglega veikur af þessu.

Kexi: Förum bara í bakaríið á eftir. Kaupum okkur Pain au chocolat. 

 

-- ATBURÐARÁS 4 —-

 

-> Litla konan (viðskiptavinurinn) er komin með matinn sinn sem var alveg eins og matur Kexa og sögumannsins.

-> Hún borðar matinn.

-> Hún hlær (alltof hátt) með matinn upp í sér.

-> Sögumaður kúgast.

-> Maðurinn í myrkrinu skóflar skjannahvítum núðlum upp í sig.

-> Sögumaður kúgast.

-> Kexi treður kúffullum gaffli af núðlum upp í sig.

-> Sögumaður kúgast.

-> Hún rótar í núðlunum.

-> Hún kúgast.

 

-- LOK ATBURÐARÁSAR 4 —-




Tótal Tómas

Tótal Tómas segir alltaf takk þegar maður réttir honum eitthvað. Hann segir takk, horfir niður, horfir útum gluggann, horfir á punkt milli vinstra eyrans og vinstra augans. Hann tekur við hlutnum og notar hann.........

                                    eða leggur hann frá sér og notar hann síðar.

 

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ 

 

Klukkan var 15:00 á fimmtudegi. Tótal Tómas var að ræða málin. Þau voru þrjú og þau voru að ræða málin. Borðið var hringlaga (þvermál: 85 cm.), þau sátu með jöfnu millibili og ennin þeirra snertust. 

 

          -> Tótal Tómas teygir sig eftir einhverju sem var falið undir borðinu.

          -> Brosir þegar hann snertir það.

          -> Slítur sig frá ennunum og horfir flóttalega í kringum sig.

          -> Brosir.

          -> Fer aftur í byrjunarstöðu.

 

Hinir tóku ekki eftir neinu... Hættu aldrei að ræða málin. Ennin eru volgari en restin af líkamanum og alheimurinn er bara til á milli 85 cm.

 

                   

 

                                                   Tileinkað Tómasi van Oosterhout

 


Sunnudagur

Skóli á morgun, hvað segið þið? Eru þið að gera eitthvað næs á sunnudagskvöldi??? :)

 

Ég var að borða spaghetti með afgöngum af dahl. Smá fusioneldhús hjá mér en mjög gott. Setti svona muldar kasjúhnetur, kotasælu og lime ofan á. Svo er ég að dunda mér að skrifa. 

Ég er endurnærð og spennt fyrir þessari viku!! Ef þið náið ekki að svara í kvöld, ekkert stress. Segið mér samr frá deginum ykkar!

 

Bestu kvðejur, Katla sæta besta ykkar allralaughing

 

 


Föstudagshangs og gaman!

Ég og kexrugladur erum að hangsa inn á prentverkstæði. Það er mjög næs. Fékk mér Kitkat úr sjálfsalanum og kaffi ;)

Er að skrifa atburðarásir fyrir einkasýninguna mína og kexrugladur er að vinna í lítagrafíusteinum.

Lífið er gott! 

 

Hvað eru þið að gera?

                               <3

                                     K

                                     a

                                     t

                                     l

                                     a


Vatnshöfuð

Logi Logi Logason talar ekki mikið. Í staðinn jánkar hann og leyfir brosinu að frjósa á andlitinu sínu á meðan aðrir tala. Í morgun byrjaði hann samt að tala. Það ætlaði aldrei að gerast. Hann var ekki búinn að segja stakt orð, ekki einu sinni góðan daginn. Ég var hins vegar búin að segja honum allt frá vinkonu minni sem var að byrja í master í kvikmyndafræði, evrópsku bíómyndinni sem ég fór á í gær og manni sem í kynntist í Belgíu í fyrra. En svo… Bara svona allt í einu… 

“Hausinn minn rúmar 3,1 lítra.” 

Ég beið eftir samhengi. Gerði eins og hann gerir, brosti og jánkaði. Skildi ekki alveg hvað ég hafði gert til að verðskulda þessar upplýsingar. Kannski var það af því að ég hafði helt upp á kaffi fyrir hann. Hann tók við bollanum og bar hann saman við hausinn sinn.

“Hvað heldurðu að þessi bolli sé stór?” spurði hann.

Ég er alls ekki góð í að horfa á hluti og segja hvað þeir eru stórir. Ég yppti öxlum og beið eftir því að hann myndi svara sinni eigin spurningu. Átti reyndar kannski von á því að hann myndi svara henni í hljóði. Hann yggldi sig. Ég sá einhverjar tölur myndast á vörum hans en hann hljóðaði þær ekki. Síðan smjattaði hann og dró inn andann.

“Ætli það þyrfti ekki tíu svona bolla, kannski 12.”

Bollastellið var úr einhverju dánarbúi. Ekki neinu tengdu mér reyndar, en svo sagði maðurinn þegar mér áskotnaðist það. Mögulega sagði hann líka “heldra fólk” við mig þegar hann rétti mér kassann, en ég er samt ekki viss. Þetta var allavega fínasta bollastell, blátt með mynd af máfum á.

“Já, einmitt. Af hverju ertu að pæla í þessu?” spurði ég. 

Logi Logi Logason roðnaði. Hann lagði niður bollann og krosslagði handleggi. 

“Sko…” sagði hann en ég fann að þetta var ekki byrjunin á neinni skýringu. Hann var ennþá ekki tilbúinn að tala. Hann hafði bara misst þetta út úr sér. Ég tók við orðinu eins og vanalega, til að bjarga honum úr sjálfheldunni: “Ég held að það sé of mikið vatn í mínum haus, ég held að ég sé með svona ógreint vatnshöfuð. Ég finn það ef ég ýti hér.”

------------------------------

Ég var alveg viss um að Logi Logi Logason hataði mig þegar við kynntumst. Við vorum að vinna saman. Hann var rosamyndarlegur gaur. Allar stelpurnar voru skotnar í honum úr fjarlægð, en ég gat samt aldrei munað eftir andlitinu hans. Ég þekkti hann bara á hárinu. Við stóðum hlið við hlið og pússuðum hnífapör, og ég var að reyna að kynnast honum. Ég spurði hann að öllum spurningunum sem ég hafði lært að spyrja: 

 

  1. Ertu í námi?

                -(ef já)-

  1. Hvaða námi?

      -(Hér er möguleiki á að skjóta inn hvern maður þekkir sem er í sambærilegur námi)-

  1. Hvernig er það?
  2. Áttu einhver áhugamál? 

        -(Fjórða spurningin á það til að hljóma barnalega en hún er líklegust til árangurs.)-

 

Svörin hans Loga Loga Logasonar voru einstrengingsleg og rækilega vel innrömmuð með þögn. Á þessum tíma kunni ég ekki að haga mér í þögninni. Ég pússaði hnífapörin á leifturhraða í von um að hann myndi smitast af ákafa mínum. Þegar engin af spurningunum þróaðist í alvöru samræður gafst ég upp. Tók við keflinu og sagði honum frá framkvæmdunum sem voru að eiga sér stað í nýju íbúðinni minni og konunni sem bjó þá fyrir ofan mig. Hann reyndi ekki að koma inn orði, stóð bara með frosið bros, pússaði hnífana og jánkaði í þau fáu skipti sem ég þurfti að anda.

 

Hann hlaut eiginlega að hata mig… það þegir enginn svona mikið með fólki sem manni líkar vel við. 

--------------

Í dag myndi ég alveg kalla okkur vini. Við vinnum ekki lengur saman en hann kemur í kaffi einu sinni í viku. Það er lítið að gera hjá okkur báðum og við höfum gott af félagsskapnum. Honum finnst ég kannski óþarflega hress, en ég er viss um að hann hefur lúmskt gaman af því.  Ég fór frá því að tala um vatnshöfuð í að tala um heimafæðingar. Svo sagði ég honum frá símtali sem ég átti við mömmu, manninum sem seldi mér hjól fyrir ári síðan og afa vinkonu minnar sem gerir við úr á Laugarveginum.

Þegar ég sagði honum frá úrsmiðinum brosti hann smá, en brosið fraus ekki. Því nánari sem við höfum orðið, því sjaldnar brosir hann og jánkar. Hann þarf ekki lengur að sanna fyrir mér að hann er að hlusta.

Þegar mér datt ekkert meira í hug til að segja stóð ég upp til að búa til meira kaffi. Útum gluggann sá ég máfa alveg eins og á bollunum. Ég sneri mér snögglega við og ætlaði að benda Loga Loga Logasyni á fuglana, en hann var fyrri til máls.

Logi Logi Logason: “Áttu fötu?”

“Á ég fötu?” hváði ég.

“Já.” svaraði hann.

-Þögn í 4 sekúndur-

“Kannski á ég fötu, hvað ertu spá?”

Logi Logi Logason var skælbrosandi, en hann horfði ekki á mig heldur á máfana fyrir utan gluggann. 

Logi Logi Logason: “Þú getur mælt rúmmál höfuðsins ef þú átt fötu…”

-Þögn í 3 sekúndur-

Ég: “Af hverju ertu-”

Logi Logi Logason: “Þú barmafyllir fötuna og dýfir hausnum ofan í. Svo þarf bara að mæla hversu mikið vatn er eftir í fötunni…”

-Þögn í 2 sekúndur-

Ég: “Já, en hver er-”

Logi Logi Logason: “Þú þarft bara að hafa það á hreinu hversu marga lítra fatan rúmar. Ég get lánað þér mína. Hún er akkúrat fimm lítrar.”

 

Seinna um daginn komst ég að því að ég er með óvenju smátt höfuð. Ekki nema 2,7 lítrar.




Kexi og sögumaður í Londrómat

“Þvottahús, svona alvöru þvottahús… Eða ég meina svona lon-dró-mat. Þessi stemming er bara ekki til á Íslandi, það eru allir með þvottavél heima hjá sér.” Sögumaðurinn leggur lófann á eina af þvottavélunum. “Merkilegt dæmi.”

Kexi potar sögumanninum áfram, nennir ekki að bíða eftir henni. Hann hatar þennan stað út af lyktinni. 

Kexi: Ég hata þessa lykt.

Sögumaður: Já, hún er reyndar smá úldin…

Innst inni í salnum er greiðsluvél. Kexi neitar að læra hvernig hún virkar, jafnvel þó að leiðbeiningarnar séu á móðurmálinu hans. Hann tekur upp greiðslukortið, beinir því í átt að vélinni, teiknar myndir með því í loftinu. Sögumaðurinn stendur bakvið við hann með krosslagðar hendur. Hún þykist telja þvottavélarnar með augunum. Hún neitar að bera ábyrgð á framgangi sögunnar.

Kexi: Hvernig gerir maður aftur?

Hann snýr sér við. Kortið er ennþá á vandræðalegu hringsóli.

Sögumaður: Hvað meinarðu, við gerum þetta í hverri viku. Þú ýtir bara hér og hér og hér. Og svo treðurðu kortinu inn í. Svona. Þú kannt þetta alveg.

Kexi kinnkar kolli af rælni. Hún fór of hratt yfir, eins og alltaf. Í hverri viku verður rullan hraðari og ólíklegra fyrir Kexa að botna hvað “hér-in” eiga að merkja. Hann rennir kortinu inn í, varfærnislega. Leyfir fingrunum að elta, leyfir þeim að bíða við opið, þeir eru með aðskilnaðarkvíða. Hann treystir ekki þessari vél. Hann treystir ekki þessari stofnun. Þessi lykt er svo ógeðsleg og hún verður verri og verri í hverri viku.

 

—--------(Athugasemd) —--------

 

Ég vil leggja áherslu á fjölda þvottavéla. Þær eru alla vega 15 en kannski færri en 25. Veggirnir eru þaktir vélum… Kannski eru engir veggir. Kannski er hleðsla þvottavélanna grundvöllur þess að þetta rými er til. Heimilislegt hljóðið í trommunum verður drungalegt þegar það kemur úr öllum áttum.

 

—------(Lok athugasemdar) —--------

 

Kexi vill bíða eftir þvottinum. Hann setur upp svip og togar í sögumanninn sem vill láta sig hverfa.

Sögumaður: Það er enginn að fara að stela rennblautum þvotti, Kexi.

Kexi: Hvað veist þú um það?

Hurðin opnast. Tveir aðilar ganga inn: Kona og maður. Sögumaðurinn lítur undan. Þannig gefur hún þeim næði til að koma sér fyrir í senunni. Þau eru ung, en á óræðum aldri. Þau eru bæði fíngerð. Þau eru bæði undrandi. Þau tala fjórða tungumálið. Ekki tungumál landsins og ekki tungumál sem Kexi og sögumaðurinn kunna.

“Skrítið fólk,” segir sögumaðurinn á sínu móðurmáli. Það kann það hvort sem er enginn nema hún og Kexi. 

Fólkið bendir á allt. Þvottavélarnar, greiðsluvélina, leiðbeiningarnar, þvottaefnið. Það benti örugglega líka á lyktina. Svo ó-uðu þau og a-uðu til skiptis. Þau voru lengi að finna út úr þessu. Höguðu sér eins og ungabörn í nýju umhverfi. Það fór í taugarnar á sögumanninum jafnvel þó það kom henni ekkert við. Hún fylgdi þeim eftir með augunum en þóttist telja þvottavélarnar þegar þau litu til hennar. 16… 17… 18… 19…

Fólkið virðist vera búið að finna út úr þessu með greiðsluvélina, flöskuháls ferlisins. Þau setja þvottinn í þvottavél og þvottefnið í hólf á þvottavélinni. Svo stilla þau sér upp andspænis vélinni. Vélin rymur. Hún þrýstir sér af stað og þvottinum með. 

“Já, þau eru stórfurðuleg.” samsinnir Kexi. 

Það er óþægilegt að horfa lengi á þau en það er ómögulegt að horfa ekki á þau. Þau eru of heilluð af þessari þvottavél.  Konan bendir á hólfið með þvottaefninu. Dregur það út og kíkir ofan í það.

Kona: Segir eitthvað ógreinilegt. 

Maður: Ó…!

Þau horfa hvort á annað. Snerta hvort annað. Snerta þvottavélina og Ó-a og A-a. Kíkja til skiptis ofan í hólfið. Furðulostin, undrandi, heilluð. Svo heilluð að Kexi og sögumaðurinn blygðast sín.

2023-07-312017-05-20


Um bloggið

Gork Spork

Höfundur

Katla Björk Gunnarsdóttir
Katla Björk Gunnarsdóttir
Hæ, velkomin á bloggið mitt. :-P Ég heiti Katla Björk og ég er í myndlist í lhí!!! Áhugamálin mín eru að ferðast, hanga með vinum og borða góðan mat.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • P1030932
  • P1030931
  • P1030930
  • P1030929
  • P1030927

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband