22.10.2023 | 20:46
Dídídí og einlægni
Íslenska veðrið er myglað og köld myglan smitast í gegnum gluggana á skrifstofunni. Samt er alltaf volgt inn á kaffistofu og sjóðheitt þegar maður stillir kaffistofustól upp við ofninn lengst frá vaskinum. Það er bara pláss fyrir einn stól þar en við erum góð í því að skiptast á... það er hvort sem er ekki gott fyrir húðina á mjóbakinu að vera í nánd við svona mikinn hita endalaust. Á kaffistofunni tölum við um veðrið og gluggana og hugsanleg gluggaskipti og einangrun og hvað það gæti kostað fyrirtækið. Svo gengur Dídídí inn.
Dídídí heldur á plastdollu í vinstri hendi og glerkrukku í hægri. Hún brosir, spyr okkur hvað við vorum að tala um og stelur sætinu af Dóróteu sem skrapp á klóstið. Hún opnar krukkuna. Stingur litla fingri ofan í og sleikir hann.
pent.
Hún sleikir litla fingur og segir okkur hvað er í rauða gumsinu.
2 msk. greipsafi
180 gr sykur
300 gr hindber
6 eggjarauður
smá salt
Eina sem er flókið er að tempra eggin.
Við kinkum kolli. Vá, þetta er ekkert mál hugsum við og fáum að smakka hjá henni. Hún yppir öxlum og hvetur okkur til þess að endurtaka skrefin, þetta tók hana jú bara fimmtán mínútur.
Dís Náttúra er alltaf kölluð Dídídí á skrifstofunni en Natura í útlöndum. Hún hugsar allt í uppskriftum. Líka sjálfa sig.
Hvað finnst ykkur um haustveðrið? spyr hún og opnar plastdolluna.
Við finnum lyktina og verðum forvitin, réttum úr okkur svo við náum rétt svo að sjá ofan í dolluna. Hún sér að við erum forvitin, glottir í sekúndubrot en hjúpar svo glottið með einlægni. Andlitsvöðvarnir eru jú þaulæfðir í einlægni.
Þetta er bara þorskhnakki frá því í gær. Ferska kartöflusalatið sem ég gerði er samt æði. Það þurfti bara að nóg af ferskum kryddjurtum, dilli og steinselju. Síðan bara:
2 msk. majónes
1 tsk. sítrónusafi
5 saxaðar súrar gúrkur
Og nóg af svörtum pipar
Dídídí býður okkur að smakka kartöflusalatið. Hún nýtur þess að bjóða fólki mat. Það er gott að næra fólk. Hún er góð ef hún nærir fólk. Við erum ennþá með bragðið af rauða gumsinu í munnninum en samt lofum við að smakka kartöflusalatið. Það er gott á bragðið og ekkert mál... Alveg eins og gumsið.
Agnari er orðið heitt á bakinu. Hann nuddar það og grínast með að húðin verði örugglega orðin að skorpu eftir þennan vetur.
Við hlæjum öll, nuddum öll sama punkt á mjóbakinu og segjum vá einmitt, það er alltaf þannig. Öll nema Dídídí sem hefur aldrei setið í þessum stól. Hún horfir á okkur, örlítið skilningslaus en hún felur það. Hún horfir á okkur og reiknar út viðeigandi viðbrögð.
Smá hlátur (ekki of ákafur)
Látbragð (Hér er gott að nudda hrygginn með flötum lófa svo hreyfingin verði
sannfærandi)
Gretta
Almennt samlæti
Og nóg af einlægni
Um bloggið
Gork Spork
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
skemmtilegt að lesa þetta bestu kveðjur
Ísabella Lilja, 27.10.2023 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.