30.9.2023 | 11:28
Asie Neptune
Það er pottþétt ekki opið.
Það er alltof dimmt til að vera opið.
Samt var hurðin var opin.
Matsölustaðurinn hét Asie Neptune (Neptúnus Asía?), ritað með þykkum rauðum stöfum á skærgrænu skilti. Kexi og sögumaðurinn hengu á hurðarhúninum, hikandi .. Annað þeirra var svo nálægt því að stinga upp á því að fara eitthvað annað
En þá kom hún .
Hlaupandi úr myrkrinu.
Komið inn, komið inn, komið inn, komið inn, sagði hún. Tók utan um úlnliðinn á sögumanninum og dró hana inn fyrir. Kexi elti. Lítið fyrir hann að gera, einan fyrir utan.
Setjist bara þar sem þið viljið. Konan talaði af svo miklum ákafa að það hefði verið ókurteisi að hlýða henni ekki.
Það var enginn inn í salnum. Auðvitað settust þau við gluggan. Óþarfi að fara innar í salinn. Inn í myrkrið.
Sögumaður: Af hverju er svona mikið myrkur hérna inni Er það ekkert skrítið?
Kexi: Kannski eru þau að spara rafmagn. Þú veist Það er orðið svo dýrt út af stríðinu.
Sögumaður: Já, einmitt. Slökktum við á ofninum áður en við fórum út?
Matseðlarnir voru úr plasti, borðdúkurinn var úr plasti og blómin voru úr plasti. Konan var í svuntu úr plasti og það skrjáfaði í henni þegar hún hljóp um rýmið.
Kexi: Ég ætla að fá mér forrétt og aðalrétt.
Þau pöntuðu.
- ATBURÐARÁS 1 -
-> Maður gengur inn.
-> Hann brosir til Kexa og sögumannsins, segir verði ykkur að góðu. (Þau eru ekki komin með matinn sinn).
-> Hann er langur með galopin augu.
-> Hann gengur löngum hægum skrefum, innar í rýmið.
-> Hann blandast myrkrinu.
-> Hann blandast myrkrinu meira.
-> Hann sest niður á innsta borðið. Snýr samt í áttina að Kexa og Sögumanninum (ath. mikilvægt seinna.)
-> Hann pantar.
- LOK ATBURÐARÁSAR 1 -
Einhversstaðar í myrkrinu er láréttur kæliskápur fyrir útstillingar. Svona eins og í bakaríum. Hann er eini ljósgjafinn í rýminu. Sömuleiðis eini hljóðgjafinn, fyrir utan svuntuna. Hún skrjáfar. Hann suðar.
Sögumaður: Er það bara ég eða er óvenjumikil þögn hérna inni?
Kexi: (Hátt og snjallt) Ha? Varstu að segja eitthvað?
Sögumaður: Fyndinn ertu.
Litla konan í svuntunni hljóp að kælinum. Hún náði í eitthvað úr kælinum og hljóp inn í eldhúsið sem var alveg innst í rýminu. Þar gargaði hún eitthvað. Kom svo hlaupandi fram alla leið að borðinu við gluggann. Það skrjáfaði í henni. Kexi og sögumaður settu sig í stellingar og tóku hendur af borðinu. Konan setti sitt hvorn diskinn fyrir framan þau, sagði verði ykkur að góðu og hljóp til baka. Allt á undir fimm mínútum.
Kexi: Ætli hún hafi sett persónulegt met?
Sögumaður: *Hlær*
Þau fá sér bita.
Maturinn var allt í lagi, þangað til hann hætti að vera allt í lagi og byrjaði að vera pínu skrítinn á bragðið.
Sögumaður: Hvað er þetta gráa?
Kexi: Ég held að þetta sé nautahakk.
Sögumaður: Oj bara
Kexi: Þetta er samt alveg ætt
Sögumaður: Já mitt líka
- ATBURÐARÁS 2 -
-> Litla konan kemur hlaupandi úr eldhúsinu með þrjá diska.
-> Hún leggur einn á borðið hjá manninum í myrkrinu og segir verði þér að góðu.
-> Hún leggur hina tvo hjá Kexa og sögumanninum og segir verði ykkur að góðu.
-> Önnur lítil kona gengur inn.
-> Hún horfir til Kexa og sögumannsins og brosir.
-> Hún segir verði ykkur að góðu. (Alltof hátt, hún er ekki búin að venjast þögninni.)
-> Hún bendir á Kexa og sögumanninn, horfir til afgreiðslukonunnar og spyr: Hvað eru þau að borða? (Ennþá of hátt)
-> Afgreiðslukonan svarar.
-> Litla konan (viðskiptavinurinn) sest á borð ekki langt frá Kexa og sögumanninum.
-> Kexi fær sér bita og grettir sig.
-> Sögumaður fær sér bita og grettir sig.
-- LOK ATBURÐARÁSAR 2 -
Sögumaður: Ég get ekki borðað þetta.
Kexi: Jú víst. Hættu þessu.
Sögumaður: Finnurðu ekki bragðið af þessu?
Kexi: Hvaða bragð.
Sögumaður: Gamla bragðið
Kexi hættir að borða.
Sögumaður: Þetta súra Sem var líka af forréttinum.
Kexi: Jú, ég finn það Það er ekki gott.
Kexi heldur áfram að borða.
Sögumaður: Ætlarðu samt að borða þetta?
Kexi: Já, ég meina ég er að borga fyrir þetta.
Sögumaður: Oj. Ég get ekki borðað þetta.
-- ATBURÐARÁS 3 -
-> Litla konan (viðskiptavinurinn) og litla konan (afgreiðslukonan) tala hátt saman.
-> Kexi fær sér bita.
-> Sögumaður grettir sig.
-> Litla konan (viðskiptavinurinn) hlær (alltof hátt).
-> Sögumaður horfir í kringum sig.
-> Sögumaður horfir inn í myrkrið.
-> Maðurinn í myrkrinu situr með súpuskál fyrir framan sig.
-> Hann sýgur upp munnfylli af skjannahvítum núðlum.
-> Hann horfir til sögumannsins. Augun hans eru jafn hvít og núðlurnar.
-> Augun og núðlurnar eru ljósgjafi í myrkrinu.
-> Núðlurnar eru hljóðgjafi í myrkrinu.
-> Sögumaður kúgast.
-- LOK ATBURÐARÁSAR 3 -
Sögumaður: Oj. Þetta er ógeðslegt. Ég get ekki borðað þetta.
Hún rótar í núðlunum. Færir þær til á disknum. Lyftir einni með gafflinum og ber hann upp að munninum. Hún kúgast.
Kexi: Hættu þessu.
Kexi treður kúffullum gaffli af núðlum upp í sig.
Sögumaður: Kexi, þetta er ógeðslegur matur. Þú verður örugglega veikur af þessu.
Kexi: Förum bara í bakaríið á eftir. Kaupum okkur Pain au chocolat.
-- ATBURÐARÁS 4 -
-> Litla konan (viðskiptavinurinn) er komin með matinn sinn sem var alveg eins og matur Kexa og sögumannsins.
-> Hún borðar matinn.
-> Hún hlær (alltof hátt) með matinn upp í sér.
-> Sögumaður kúgast.
-> Maðurinn í myrkrinu skóflar skjannahvítum núðlum upp í sig.
-> Sögumaður kúgast.
-> Kexi treður kúffullum gaffli af núðlum upp í sig.
-> Sögumaður kúgast.
-> Hún rótar í núðlunum.
-> Hún kúgast.
-- LOK ATBURÐARÁSAR 4 -
Um bloggið
Gork Spork
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
cool hvernig þú setur þykka rauða stafi og skær græna og þannig
Ísabella Lilja, 4.10.2023 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.